Ég vil byrja á því að þakka fyrir það fallega og óeigingjarna starf sem unnið er hjá Icelandair í þágu barna og unglinga sem hafa búið við erfið og langvarandi veikindi.  Ég er ein af þessu unga fólki sem hef notið þessa starfs en ég var svo lánsöm að njóta þess að fá að ferðast á vegum Vildarbarna til Bandaríkjanna dagana 10.-18.sept. s.l.

Þar sem ég er mikið fyrir heitt loftslag valdi ég að fara til Orlando og varð ekki fyrir vonbrigðum með það val. Ég fékk að bjóða mömmu með mér og við áttum yndislegan tíma saman.

Þetta var í raun allt mjög óraunverulegt frá því að ég fékk tilkynninguna um að ég hafi verið valin sem Vildarbarn, en þegar við hittum hana Dóru  forstöðumann Vildarbarna Icelandair í eigin persónu, rann upp ljós fyrir mér að þetta væri ekki draumur heldur raunveruleg draumaferð.

Ferðalagið til Orlando gekk vel. Flugvélarnar hjá Icelandair eru rúmgóðar og þægilegar og nóg af afþreyingarefni til að stytta sér stundir á leiðinni, að ekki sé talað um alúð og elskulegheit starsfsfólksins um borð sem var alltaf með bros á vör og tilbúið að gera ferðina sem þægilegasta fyrir okkur.

Þegar til Orlando var komið tók hún Heidi á móti okkur og hjálpaði okkur að ná í bílaleigubílinn og koma okkur af stað út í umferðina og ævintýrið sem beið okkar.

Okkur gekk vel að keyra í Orlando og var það ekki síst að þakka GPS röddinni okkar sem leiddi okkur um borgina og nærliggjandi staði eins og þíður sunnanvindurinn.  Það kom skemmtilega á óvart hversu góð umferðarmenningin er í Orlando.  Þolinmæði og kurteisi er greinilega í fyrirrúmi hjá ökumönnum þar á bæ.

Áður en við vissum af vorum við komnar til Tuscana Resort en þar bjuggum við næstu dagana.  Við fengum hlýlega íbúð með öllum þægindum.  Allt umhverfið á Tuscana Resort er til fyrirmyndar.  Það er mjög vel hugsað um allt svæðið.  Litlir íkornar, froskar og eðlur gerðu umhverfið enn ánægjulegra.  Sundlaugasvæðið var mjög flott og þægilegt.  Við snæddum tvisvar sinnum á veitingastaðnum þar og urðum ekki fyrir vonbrigðum.  Allt starfsfólkið var mjög elskulegt og með hlýtt viðmót.

Við nutum þess að baða okkur í sólskininu í sundlauginni á Tuscana og sjúga í okkur D vítamínið sem ekki veitir af að byrgja sig upp af fyrir veturinn og skólanámið.  Það var mjög heitt alla ferðina eða frá 30 til 40 stiga hiti sem hentaði okkur vel.  Inn á milli voru miklar rigningar en það var bara ánægjulegt.  Þá nýttum við tímann í að fara í verslunarleiðangra.  Við ákváðum að fara til Sarasota og fara á fallegustu ströndina í Bandaríkjunum, en það er Siesta Beach. Við nutum þess að rölta eftir strandlengjunni og finna hlýjann andvarann leika um okkur.  Sandurinn á ströndinni er mjög fíngerður og mjög sérstakur.

Við skelltum okkur í Downtown Disney sem var skemmtileg upplifun.  Allt iðaði af  lífi þar og hæfileikaríkir tónlistarmenn á hverju horni.  Við ræddum við einn þeirra, Gypsy gítarleikarann Nicholas Marks, sem okkur fannst standa upp úr.

Ferðin í heild sinni var frammúrskarandi vel heppnuð og heillandi. Við vildum rólegheit og þægindi umfram allt og það fengum við. Ég gat fylgst með náminu og stundað það eftir bestu getu líka.  Fólkið í Orlando var allt var mjög vingjarnlegt og hjálplegt og við fundum fyrir mikilli hlýju og fannst við velkomnar alls staðar.

Með sól í hjarta og sól í sálu viljum við færa Icelandair hjartans þakkir fyrir allt sem búið er að gera fyrir okkur.  Dóru hjá Vildarbörnum viljum við þakka sérstaklega fyrir hennar hlýja viðmót og elskulegheit og að setja okkur inn í allt.  Einnig viljum við þakka hinni yndislegu Heidi fyrir að taka á móti okkur og aðstoða okkur.  Hjartans þakkir sendum við einnig Sigurði Helgasyni formanni sjóðsins og konu hans Peggy Oliver Helgason, iðjuþjálfa, sem um árabil hefur unnið sem sjálboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti.  Einnig innilegar þakkir til flugáhafnanna sem fluttu okkur á milli heimsálfanna.

Með þakklæti,

Björg Blöndal.