26.03.2010

Í dag var afhent fjárupphæð sem safnaðist í söfnunarátaki sem nemendur Hagaskóla unnu að í marsmánuði. Alls söfnuðust 1.016.000 kr sem skiptist jafnt á milli tveggja góðgerðarsamtaka. Samtökin Sóley og félagar og Vildarbörn Icelandair fá hvort um sig 508.000 kr í styrk frá nemendum skólans.

Söfnunin fór fram úr björtustu vonum en nemendur Hagaskóla eiga heiður skilinn fyrir vel unnið og óeigingjarnt starf. Söfnunin er hluti af þróunarverkefninu Vinátta, virðing og jafnrétti en Sigríður Eyþórsdóttir, iðjuþjálfi, slóst í lið með skólanum í verkefninu og hefur staðið fyrir fræðslu meðal nemenda um hvað felst í sjálfboðaliðastarfi.

Miðvikudaginn 24. mars héldu nemendur styrktarskemmtun í skólanum undir heitinu Gott mál í Hagaskóla og var ýmislegt spennandi í boði. Nokkur kaffihús voru á staðnum, kennara buðu upp á reiðhjólaviðgerðir og snyrtingu, bekkir stóðu fyrir happdrætti, leikjum og þrautum ásamt því að fjölbreytt skemmtidagskrá var víða um skólann. Þá voru haldnir tveir góðgerðardansleikir annar fyrir nemendur Hagaskóla og hinn fyrir nemendur 6. og 7. bekkjar í nágrannskólunum.