09.11.2009

Í dag afhenti Birgir Daníel Birgissonson, forsvarmaður tónleika sem Jethro Tull hélt í Háskólabíói í september Dóru Elínu Atladóttur, forstöðumanni Vildarbarna 800 þúsund krónur sem er ágóði af tónleikunum.

Tónleikarnir voru góðgerðartónleikar og rann allur ágóðinn til Vildarbarna og Fjölskylduhjálpar Íslands.

Styrkurinn er mikilvægt framlag til Vildarbarna. Markmið sjóðsins er að gefa langveikum börnum tækifæri til þess að fara í draumaferð sem þau ættu annars ekki kost á. Alls hafa um 260 fjölskyldur notið stuðnings frá sjóðnum frá stofnun hans.

Sjóðurinn Vildarbörn nýtur einkum stuðnings með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með beinu fjárframlagi Icelandair. Í öðru lagi með frjálsum framlögum félaga í Vildarklúbbi Icelandair sem geta gefið af vildarpunktum sínum. Í þriðja lagi er sjóðurinn fjármagnaður með söfnun afgangsmyntar um borð í flugvélum Icelandair.

Starfsemi Vildarbarna Icelandair byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason, eiginkonu Sigurðar Helgasonar, sem hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Hún er nú í stjórn Vildarbarna Icelandair. Verndari sjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands en Sigurður Helgason er formaður stjórnar hans.

Icelandair var styrktaraðili tónleikanna með Jethro Tull

Halldor.is_2009-11-09-130718

Á myndinni tekur Dóra Elín Atladóttir við 800 þúsund króna stuðningi úr hendi Birgis Daníels Birgissonar.