16.03.2009

mbl_16.03.09_fimm_fjolsk._til_Orlando Síðdegis í dag fara fimm langveik börn, eða börn sem búa við erfiðar og sérstakar aðstæður, með fjölskyldum sínum í draumaferð til Orlando Í Florida á vegum Vildarbarna Icelandair. Á þeim sex árum sem liðin eru frá stofnun sjóðsins hafa 224 börn og yfir eitt þúsund fjölskyldumeðlimir ferðast á vegum sjóðsins, sem var stofnaður til þess að veita fólki sem á erfitt með ferðalög tækifæri til þess að komast í frí til annarra landa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. „Það er óeigingjarnt framlag farþega okkar sem gerir þetta frábæra verkefni mögulegt því með gjöfum þeirra á innlendri og erlendri mynt er lagður grunnur að sjóðnum. Sumir farþegar láta einnig vildarpunktana sína renna til Vildarbarna. Til viðbótar þessu leggur Icelandair til fjárhæð á hverju úthlutunartímabili," segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni en hann kvaddi fjölskyldurnar fimm sem fara erlendis í dag. „Sjóðurinn hefur orðið öflugri með hverju ári sem gerir sífellt fleiri fjölskyldum fært að komast í draumaferðina. Ferð sem þessi er oft kærkomin því veikindi barna hafa gífurleg áhrif á alla fjölskylduna." Fjölskyldunum sem fá styrk Vildarbarna er boðið í utanlandsferð að eigin vali til áfangastaða Icelandair og er allur kostnaður greiddur: flug, gisting, bílaleigubíll, dagpeningar, auk aðgangseyris að sérstökum viðburði sem hvert Vildarbarn kýs að upplifa. Vinsælasta ferðalag Vildarbarna hefur hingað til verið vikuferð til Disney World í Flórída en þau hafa einnig valið ýmsa aðra áfangastaði.

Þessi grein var fengin úr Viðskiptablaðinu þann 16.03.09.