30.10.2008

Í morgun, fyrsta vetradag, var í ellefta sinn úthlutað styrkjum úr sjóði Vildarbarna Icelandair. Að þessu sinni hlutu 23 börn og fjölskyldur þeirra styrk úr sjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður til þess að veita langveikum börnum og börnum sem búa við sérstakar aðstæður og fjölskyldum þeirra tækifæri til að ferðast til annarra landa.

Á þeim fimm árum sem liðin eru hafa 205 börn og samtals fleiri en eitt þúsund manns ferðast á vegum sjóðsins.

Ferðasjóður Vildarbarna var stofnaður árið 2003 með stofnfjárframlagi Icelandair. Síðan hefur gestum í flugvélum Icelandair staðið til boða að styrkja sjóðinn með því að skilja eftir mynt í sérstökum umslögum í sætisvösum. Einnig geta þeir sem safna Vildarpunktum gefið punkta sína til Vildarbarna.

Verndari sjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og formaður stjórnar er Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Icelandair.