20.04.2006

Tuttugu og fimm börn og fjölskyldur þeirra fengu í dag ferðastyrk úr sjóðnum Vildarbörn Icelandair og hefur aldrei verið úthlutað til jafn margra. Flestar fjölskyldurnar eru íslenskar en nú fær einnig fjölskylda frá Danmörku og Englandi styrk úr sjóðnum.

„Það er óeigingjarnt framlag farþega okkar sem gerir þetta einstaka verkefni mögulegt því með gjöfum þeirra á innlendri og erlendri mynt er lagður grunnur að sjóðnum. Sumir farþegar láta þetta ekki nægja og láta einnig vildarpunktana sína renna til Vildarbarna. Til viðbótar þessu leggur Icelandair til veglega fjárhæð á hverju úthlutunartímabili," segir Áslaug Thelma Einarsdóttir framkvæmdastjóri Vildarbarna. „Icelandair styður við verkefni í íþróttum, listum og mannúðarmálum og við erum sérlega stolt af þessu sameiginlega átaki félagsins og viðskiptavina þess. Sjóðurinn hefur orðið öflugri með hverju ári sem gerir sífellt fleiri fjölskyldum fært að komast í draumaferðina. Ferð sem þessi er oft kærkomin því veikindi barna hafa gífurleg áhrif á alla fjölskylduna og algengt er að systkini og aðrir fjölskyldumeðlimir falli í skuggann á meðan á erfiðum baráttutíma stendur."

Fjölskyldunum sem fá styrk Vildarbarna er boðið í utanlandsferð að eigin vali til áfangastaða Icelandair og er allur kostnaður greiddur: flug, gisting, bílaleigubíll, dagpeningar, auk aðgangseyris að sérstökum viðburði sem hvert Vildarbarn kýs að upplifa. Alls hafa nú 80 börn og fjölskyldur þeirra fengið úthlutað úr sjóðnum frá því að hann var stofnaður árið 2003 og er heildarfjöldi farþega á vegum sjóðsins með þessari úthlutun orðinn á fjórða hundrað. Vinsælasta ferðalag Vildarbarna hefur hingað til verið vikuferð til Disney World í Flórída en þau hafa einnig valið ýmsa aðra áfangastaði. Þess má geta að fjölskyldan frá Englandi sem nú hlýtur styrk ferðast til Íslands vegna þess hve Latibær er í miklu uppáhaldi.

Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með þrennum hætti. Í fyrsta lagi er farþegum um borð í flugvélum Icelandair boðið að gefa afgangsmynt til sjóðsins en því hefur sem fyrr segir verið tekið mjög vel. Í öðru lagi gefst félögum í Vildarklúbbi Icelandair kostur á því að gefa af vildarpunktum sínum. Í þriðja lagi leggur svo Icelandair fram fé til sjóðsins.

Tilgangur Vildarbarna Icelandair er að gefa langveikum börnum og börnum sem búa við sérstakar aðstæður kost á því að fara í draumaferð. Starfsemi sjóðsins er byggð á hugmyndum og starfi Peggy Helgason iðjuþjálfa en hún hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík. Þá hefur hún stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Peggy á sæti í stjórn Vildarbarna Icelandair en formaður stjórnarinnar er Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Icelandair. Halldór Jón Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans er varaformaður stjórnar. Aðrir stjórnarmenn eru: Anna Ólafía Sigurðardóttir sviðsstjóri á Barnaspítalanum, Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir Barnaspítalans, Áslaug Thelma Einarsdóttir, kynningarstjóri Icelandair, Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, Stefán Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningarstöðvar ríkisins og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins. Verndari sjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Skemmtilegar ferðasögur og frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á www.vildarborn.is.