22.10.2005

Fimmtán börnum og fjölskyldum þeirra var afhentur ferðastyrkur í dag úr sjóðnum Vildarbörn Icelandair. Fjölskyldunum er boðið í utanlandsferð að eigin vali til áfangastaða Icelandair og er allur kostnaður við ferðina greiddur, þ.e. flug, gisting, bílaleigubíll dagpeningar og aðgangseyrir að sérstökum viðburði sem Vildarbarnið langað að upplifa. Alls hafa 55 börn og fjölskyldur þeirra fengið úthlutað úr sjóðnum frá stofnun hans árið 2003 og er heildarfjöldi farþega á vegum sjóðsins kominn yfir 220 manns. Oftast hafa Vildarbörnin kosið að fara í vikuferð til Disney World í Florida, en ýmsir aðrir áfangastaðir hafa einnig orðið fyrir valinu.

Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með beinu fjárframlagi Icelandair. Í öðru lagi með frjálsum framlögum félaga í Vildarklúbbi Icelandair sem gefa af vildarpunktum sínum. Síðast en ekki síst er sjóðurinn fjármagnaður með söfnun afgangsmyntar frá farþegum um borð í flugvélum Icelandair. Árangur þeirrar söfnunar hefur farið fram úr björtustu vonum og fyrir vikið er að þessu sinni unnt að styrkja mun fleiri börn en fyrr til utanlandsferðar ásamt fjölskyldum sínum og sérstökum aðstoðarmönnum ef á þarf að halda.

Tilgangur sjóðsins er að gefa langveikum börnum og börnum sem búa við sérstakar aðstæður tækifæri til að fara í draumaferð sem þau ættu annars ekki kost á. Starfsemi hans byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason iðjuþjálfa, sem hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Peggy er nú í stjórn Vildarbarna Icelandair, en formaður stjórnarinnar er Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Icelandair. Verndari sjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
Skemmtilegar ferðsögur frá krökkunum og frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á www.vildarborn.is