09.03.2006

Dagana 21. - 28. janúar var haldin alþjóðleg skíðavika flugmanna í Kleinarl í Austurríki. Þetta var í 31 skipti sem slík samkoma var haldin og voru þátttakendur 344 frá tuttugu þjóðum, allt frá Ástralíu og Japan norður til Íslands og Kanada. Á hverju ári er ein þjóð gestgjafar og mótshaldarar og í þetta sinn var röðin komin að Íslendingum.

Einn af föstum dagskrárliðum þessarrar skíðaviku er happdrætti og var aðalvinningurinn gjafabréf frá Icelandair með farmiðum fyrir tvo á einhverri af áætlunarleiðum félagsins. Þennan ágæta vinning hreppti kanadískur flugstjóri að nafni George Ellerbeck. Daginn eftir kom hann að máli við formann skíðanefndar FÍA og kvaðst vilja gefa vinninginn til góðgerðarmála á Íslandi og lagði til að haldið yrði uppboð á miðunum kvöldið eftir. Það var síðan ungur íslenskur flugmaður, Haraldur Óskarsson sem keypti gjafabréfið á 1.100 evrur. Skíðanefndin ákvað að styrkja Vildarbörn, ferðasjóð Icelandair fyrir langveik börn, með þessari góðu gjöf.
Sjóðurinn og tilurð hans var kynnt fyrir uppboðið og lýstu gestir yfir mikilli ánægju með þessa frábæru stofnun.

Skíðanefnd FÍA ákvað síðan að tvöfalda andvirði gjafabréfsins og því er okkur mikil ánægja að tilkynna stjórn sjóðsins að framlag Icelandair til þessa happdrættis skilar sér nú til Vildarbarna sem 160.000 króna gjöf.

Með kærri kveðju,
f.h. skíðanefndar FÍA,
Páll Stefánsson, flugstjóri.