27.02.2014

Hannes Hlífar Stefánsson sigraði á æsispennandi Stórmeistaramóti Vildarbarna sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica sl. sunnudag. Hannes var taplaus á mótinu og hlaut 8 vinninga af 9 mögulegum. Helgi Ólafsson varð í öðru sæti með 7,5 vinning. Margeir Pétursson, sem tefldi á sínu fyrsta móti innanlands í mörg herrans ár, varð þriðji með 6 vinninga. 

Tíu stórmeistarar tóku þátt í mótinu og þar á meðal öll "fjórmenningarklíkan" sem tefldi saman í fyrsta skipti í lokuðu móti í um áratug.

500.000 kr gjöf til Vildarbarna Icelandair
Mótið hófst með afhöfn þar sem Hjörvar Steinn Grétarsson bauð gesti og gangandi velkomna og útskýrði hugmyndina um mótshaldið fyrir gestum sem voru fjölmargir. Hann hafði fyrir löngu ákveðið að þakka fyrir sig með slíku mótshaldi. Í hléi færði hann svo Helga Má Björgvinssyni, stjórnarmanni í Vildarbörnum, gjöf upp á 500.000 kr.

En að mótinu sjálfu. Helgi Ólafsson hóf mótið með miklum látum og vann hverja skákina á fætur annarri. Eftir sjö umferðir hafði hann fullt hús. Hannes Hlífar Stefánsson fylgdi honum hins vegar eins og skugginn og hafði 6 vinninga af loknum sjö umferðum. Þeir mætust þá í áttundu og næstsíðustu umferð og þar með hafði Hannes náð honum að vinningum. 

Í lokaumferðinni tefldi Helgi við Margeir og Hannes við Þröst. Margeir náði að þráskák Helga í spennandi skák. Hannes vann svo Þröst eftir mikla baráttu og þar með ljóst að sigurinn væri hans.

Að fá átta vinninga í svo sterku móti er frábær frammistaða. Vinningshlutfall Helga ætti undir venjulegum kringumstæðum hefði dugað til sigurs. Margeir kom sterkur inn á sína fyrsta innlandi hraðskákmóti í mörg herrans ár. Jóhann Hjartarson varð fjórði með 5 vinninga, Helgi Áss Grétarsson varð fimmti með 4,5 vinning. Lokatöðu mótsins má nálgast á Chess-Results.

Aðstæður á skákstað voru góðar. Í hliðarsal voru Björn Þorfinnsson og Ingvar Þór Jóhannesson með skákskýringar en mikill fjöldi áhorfenda sótti mótið.

Nánar um mótið á skákfréttavef Íslands