Ferðalag til Orlando Florida 2010

Ég heiti Hildur Ása og er 15 ára. Mig langar til að segja ykkur frá draumaferðinni minni til Orlando, Florida sem ég fór í ásamt fjölskyldu minni í boði Vildarbarna Icelandair. Þetta byrjaði allt saman á því að mamma fékk símtal og var tilkynnt að ég hefði verið valin Vildarbarn og gæti því farið í draumaferð mín í boði Vildarbarna Icelandair. Ég og Valdís systir mín fórum vetrardaginn fyrsta á hótel Flugleiðir til að taka á móti vinningnum. Þar voru 9 aðrar fjölskyldur, flottar veitingar og frú Vigdís Finnbogadóttir verndari samtakanna. Ég var ekki lengi að velja mér land til að fara til því mér fannst Disney og allir skemmtigarðarnir í Orlando heilla rosalega.

Við ákváðuðum að fara í mars og því margir dagar sem fóru í að hlakka til ferðarinnar. Mér fannst ótrúlega gaman í flugvélinni enda hef ég ekki farið í flugvél síðan ég var pínulítil. Flugfreyjurnar voru ótrúlega góðar við mig og tilkynntu öllum í flugvélinni að ég væri í vélinni á vegum vildarbarna. Ég fékk heyrnartól til að horfa á bíómyndir og síðan litaði ég póstkort sem flugfreyjurnar ætluðu að senda til vina minna, Höllu og Hafsteins á Ísafirði.

Þegar við lentum tók stelpa á móti okkur sem sýndu okkur bílaleigubílinn og hvernig við ættum að komast á hótelið. Mamma var smá stressuð að keyra en svo var þetta ekkert mál, mikið þægilegri umferð heldur en á Íslandi. Bíllinn var líka með leiðsögutæki sem leiðbeinti okkur allt. Hótelið okkar hét Tuscana Resort en það var mjög miðsvæðis og flott, við vorum bara í okkar eigin íbúð. Ég fór strax að sofa því ég var svo þreytt enda var flugið 8 tímar.

 

Fyrsta daginn sváfum við aðeins út því við vorum svo þreytt eftir ferðalagið. Við fórum á Denny´s í ekta amerískan morgunverð/hádegisverð. Við fórum í matarbúðir og nokkrar aðrar búðir því það var frekar kalt úti og skýjað. Ég keypti mér peysu, bol og strigaskó. Þegar við komum aftur á hótelið fórum við í heita pottinn sem var bara alls ekkert svo heitur.

Dagur 2. Við fórum í Sea World og þar sá ég fullt af dýrum. Við fórum á sýningu sem heitir Shamu, þar voru háhyrningar að sýna listir sínar. Þeir skvettu vatni á okkur með sporðinum og vinkuðu. Systkini mín fóru í einn svakalegann rússíbana sem ég þorði ekki í en ég fór í hringekju og í bátsferð þar sem ég varð smá blaut. Mér finnst skemmtilegast í svona vatnatækjum.

Dagur 3. Vöknuðum snemma og fórum í Universal Studios og Adventure Island. Í Universal hitti ég uppáhalds persónurnar mínar Hómer og Bart Simpsson og það var tekið mynd af mér með þeim. Ég fór í Simpson tæki og Men in black tæki að skjóta geimverur. Við borðuðum á Hard Rock Café og fórum svo í Adventure Island. Þar fór ég í fullt af tækjum: Jurassic park bát sem við blotnuðum öll í, spiderman tæki, lest og í endann fórum við í vatnatæki og urðum rennandi blaut en það var í lagi því það var mjög gott veður og dagurinn á enda.

Dagur 4. Það var svo gott veður að við vorum á hótelinu í sólbaði. Þar var sundlaugin svo ísköld að ég rétt fór ofan í með tærnar. Um kvöldið fórum við í Down Town Disney og ætluðum að borða á RainForest Café en það var svo rosalega löng biðröð að við ákváðum að fara eitthvað annað kvöld og röltuðum aðeins um í staðinn. Við fórum svo í staðinn á Pizza hut og þjónninn okkar hét Kirk og var mjög skemmtilegur. 

Dagur 5. Við vöknuðum snemma og kíktum aðeins í mollið þar sem ég og Valdís keyptum okkur ís. Síðan fórum við aftur á hótelið í smá sólbað. Veðrið var gott. Við fórum á Golden Coral að borða en það er hlaðborð og maður mátti borða eins og maður vildi. Dagur 6. Þennan dag fórum við í Busch Garden en við þurftum að keyra í klst til að komast þangað. Ég sá apa og górillu og fór í lest og sá gíraffa, nashyrninga, sebrahest, fíl o.fl. Ég fór í lítinn rússíbana með Valdísi sem snerist í fullt af hringjum og leist ekkert á þetta á tímabili :) Við sáum líka tígrísdýr og risastórar skjaldbökur. Ég fór í 3 vatnatæki og fannst rosalega gaman. Við vorum alveg til lokun í þessum skemmtilega garði og fórum svo heim. Dagur 7. Við sváfum aðeins út og vorum komin út um hádegi. Í dag var hlýtt en skýjað svo við nýttum þennan eiginlega síðasta dag í búðaráð í Florida Mall. Eftir búðaráp fórum við snemma í Down Town Disney að borða í Rain Forest Café en það er veitingastaður sem er alveg eins og frumskógur. Á hálftíma fresti komu þrumur og eldingar og dýrin á staðnum lifnuðu við. Apahljóð og fílahljóð.   

Dagur 8. Síðasti dagurinn runninn upp eftir æðislega ferð. Við tjekkuðum okkur út af hótelinu kl.11 en þurftum ekki að leggja af stað á flugvöllinn fyrr en um kl.15:00 svo við lágum í hótelgarðinum í smátíma enda var besta veðrið alla ferðina þennan dag en við gátum ekki legið lengi í sólbaði því það var eiginlega of heitt. Flugið heim gekk mjög vel og við vorum einungis um 6 tíma á leiðinni heim. Ég vil þakka Vildarbörnum Icelandair fyrir þessa æðislegu ferð sem hefði örugglega aldrei orðið af nema vegna þeirra aðstoð. Þetta var æðisleg lífsreynsla sem ég mun aldrei gleyma.

Takk fyrir mig, Hildur Ása.