Það var ekki lítil gleðin á heimilinu þegar Dóra Elín frá Vildarbörnum Icelandair hringdi í okkur í október síðastliðnum. Unnur Sólveig, sem er sjö ára, hafði fengið styrk til ferðalags til einhvers af áfangastöðum Icelandair ásamt systkinum sínum þremur, mömmu sinni og öðrum fylgdarmanni.

Þegar við höfðum aðeins náð okkur niður á jörðina var farið í skoða hvert skyldi fara. Unnur Sólveig var langspenntust fyrir öllu stuðinu sem Orlando í Flórída hefur uppá að bjóða. Skemmtigarðarnir þar eru margir og svakalega spennandi . Við skoðuðum þá á netinu og veltum fyrir okkur hverjir væru áhugaverðastir. Unnur Sólveig og Anna Kamilla tvíburasystir hennar ásamt Nikulási stóra bróður höfðu mikinn áhuga á að komast í rússíbana á meðan Birna Ída, litla systirin, var ákveðin í að hitta Disneyprinsessur. En það sem Unnur Sólveig vildi helst og mest af öllu í öllum heiminum gera var að synda með hákörlum og höfrungum. Orlando hafði eitthvað fyrir alla. Þó svo að Unnur Sólveig sé Vildarbarnið er það nú yfirleitt þannig að þegar barn veikist alvarlega hefur það áhrif á alla fjölskylduna. Ekki síst systkinin. Það var því mikilvægt að þau öll fengu að njóta sín í ferðinni. Amma Anna var fengin með í ferðina til að hjálpa til með allan krakkaskarann og ekki veitti af. Hún var ómetanleg hjálp og hefði ferðin aldrei gengið svona vel án hennar.

Við lentum í Orlando frekar seint um kvöld og vorum ekki kominn í íbúðina okkar fyrr en um miðnætti. Ferðalagið var langt og erfitt fyrir litla kroppa þannig að það var ekki annað í boði en að fara beint að sofa.

Hótelið okkar, Tuscana Resort, var yndislegt. Við vorum með stóra vel útbúna íbúð og garðurinn ofsalega fallegur með upphitaðri sundlaug og heitum potti. Við vorum einstaklega heppin með veður. Sól og hiti 25- 30°C nánast alla dagana.

Ferðin var skipulögð þannig að við heimstóttum skemmtigarða annan hvern dag og “hvíldum“ okkur við sundlaugina hinn daginn.

Fyrsti garðurinn sem við fórum í var Walt Disney World, Magic Kingdom. Oboj! Það var upplifun. Við höfðum öll svakalega gaman af því að sjá alla Disneydýrðina en litla skottið, hún Birna Ída, fann sig hvað best þar. Hún var heilluð af prinsessunum og fannst sko ekki leiðinlegt að fá knúsa þær og láta mynda sig með þeim. Stærri krökkunum fannst Geimfjallið skemmtilegast og öll höfðum við gaman af því að sjá bæði skrúðgönguna og sýningu sem var um kvöldið fyrir framan upplýstan Öskubuskukastalann. Við eyddum öllum deginum í garðinum og var ekki komið heim á hótelið aftur fyrr en 13 tímum eftir að lagt var af stað. Deginum á eftir var eitt í hótelgarðinum. Krakkarnir hömuðust í sundlauginni allan daginn og veðrið lék við okkur. Uppundir kvöldið fórum við í Down Town Disney. Þar röltum við um, skoðuðum í búðunum og enduðum svo á því að borða á mjög svo sérstökum og skemmtilegum veitingastað, Rainforest Café. Þar voru risastór fiskabúr og dýr, fílar, apar og fuglar (ekki alvöru) sem skríktu og hömuðust á milli þess sem þrumur og eldingar dundu á matargestum.

Næsti skemmtigarður sem við fórum í var Bush Gardens. Hann er æðislegur. Rússíbanarnir eru þeir allra svakalegustu og svo er garðurinn líka dýragarður. Þar eru ljón, górillur, gíraffar og tígrisdýr svo einhver séu nefnd. Ekki skemmir fyrir hvað garðurinn er gróðurmikill fallegur. En hann var svo stór að það var ekki hægt að komast yfir hann allan á einum degi. Þar sem við vorum með ótakmarkaðan aðgang að honum fórum við tvisvar. Fyrra skiptið vorum við mest í tækjunum og það seinna fór í að skoða dýrin.

Síðasti og skemmtilegasti garðurinn sem við fórum í var Discovery Cove. Þar eyddum við síðasta heila deginum okkar. Þetta er garður með höfrungum, risaskötum, hákörlum og allskonar sjávardýrum og framandi fuglum. Í garðinum fengum við öll blautbúninga og snorklgræjur. Við gátum kafað og synt með fiskunum í einstöku umhverfi. Hápunkturinn og það sem stendur hvað mest uppúr í allri ferðinni var að fá að hitta höfrungana. Unnur Sólveig, Anna Kamilla, Nikulás Tumi og mamman fengu að svamla með höfrungunum, klappa þeim og kyssa. Amman passaði Birnu litlu á meðan því maður þarf að vera vel syndur til að fá að vera með höfrungunum. Þær Birna og amman voru duglegar að taka myndir af okkur. Við syntum eitt og eitt í einu langt út í djúpa laugina og komu svo höfrungar og syntu með okkur á bakinu. Það var alveg mögnuð upplifun og eitthvað sem maður mun aldrei gleyma og sennilega aldrei fá tækifæri til að prófa aftur. 

Frá fyrsta til síðasta dags var ferðalagið ævintýri. Alla morgna var vaknað eldsnemma og haldið út í daginn og ekki snúið inná hótelíbúðina aftur fyrr en seint um kvöld, allir örþreyttir og alsælir. Við fjölskyldan viljum þakka Vildarbörnum Icelandair kærlega fyrir okkur. Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt ferðalag sem gaf okkur frábærar minningar sem munu lifa með okkur.