Við komum með kvöldflugi á þriðjudagskvöldi til Orlando og vorum ekki komin heim á hótelið fyrr en um miðnætti. Mama bætti við 3 dögum, þannig að við vorum í 10 daga.

Fyrsta daginn slöppuðum við bara af og fórum í sundlaugina við hótelið. Íbúðin er svakalega flott og mikið stærri en íbúðin sem við búum í heima á Ísland. Það var yndisleg kona sem heitir Heidi og býr í Flórída, sem tók á móti okkur á flugvellinum og hjálpaði okkur með bílaleigubílinn. En mamma hafði gleymt ökuskírteininu heima! Heidi keyrði okkur því á hótelið um kvöldið, og strax næsta morgun fór mamma að vinna í því að fá afrit af ökuskírteininu faxað á hótelið. Það reddaðist fyrir hádegi næsta dag, með hjálp Dóru hjá Vildarbörnum og Heidi keyrði okkur þá upp á flugvöllinn aftur svo við gætum klárað samninginn við bílaleiguna. Dóra kom svo með ökuskírteinið til mín á hótelið á laugardeginum. Algjör engill ! Ég fékk Dóru, ásamt tveimur frábærum starfsmönnum frá Saga Film, að fylgja okkur í garðana og kvikmynda okkur. En þau voru að búa til kynningarmyndband fyrir Icelandair og Vildarbarnasjóðinn. Mér þótti það ekki leiðinlegt :)

Daginn eftir að við komum til Orlando, sóttum við föðursystur mína sem flaug alla leið frá Oklahoma með litla frænda minn sem er 9 mánaða og við fórum öll saman í Island of adventures. Ég var svo svakalega spenntur, því ég var búinn að dreyma um þetta lengi og langaði svo mikið að fara. Ég vissi þess vegna nákvæmlega hvað mig langaði að gera í garðinum. Mér fannst skemmtilegast í Harry potter heiminum og kastalinn var svakalega skemmtilegur. Spiderman rússíbaninn varlíka rosalega skemmtilegur. Við mamma fórum svo í svakalegan rússíbana í Toon Lagoon sem fór í gegnum vatn og vorum við bæði rennandi blaut.

Pabbi vildi fara með mig í risastóran rússíbana sem heitir Hulk. Ég ætlaði ekki að þora, en það endaði svo með því að við fórum tvisvar í röð. Við vorum þarna fram á kvöld og skemmtum okkur rosalega vel.

Þriðja daginn fórum við á mjög sérstaka strönd í Sarasota.Við keyrðum í 2 klukkutíma og það var vel þess virði. Það er sagt að þetta sé besta strönd í heiminum! Sandurinn er alveg hvítur og er fínn eins og hveiti. Hann hitnar ekki heldur. Skjaldbökur fara á þessa strönd til þess að verpa eggjum. Á ströndinni kynntist ég stelpu sem ég lék mér við heil lengi.

Daginn eftir strandarferðina kom pabbi minn og amma og afi keyrandi frá Oklahoma, það er 20 tíma akstur. Ég hafði ekki séð föðurfjölskylduna mína í 5 ár! Þar sem þau komu um kvöld við áttum bara kóskýkvöld heima á hótelinu.

Næsta dag fórum við svo öll saman í Universal Studios og eyddum þar öllum deginum. Uppáhalds tækið mitt þar var Homer Simpson, ég fór tvisvar í það tæki. Planið var svo að fara næsta dag aftur á ströndina, en það var rigning, þannig að við áttum bara góðan fjölskyldutíma heima og skruppum aðeins í búðir. Það var svo þurrt daginn eftir og við fórum þá í Down Town Disney. Þar fórum við fjölskyldan út á bát í klukkutima, afi stýrði bátnum. Á leiðinni heim frá Downtown Disney, stoppuðum við vatn. Þar sá ég fullt af grænum eðlum sem kallast Gecko. Þær voru grænar. Ég náði nokkrum og setti flösku, en ég sleppti þeim þegar ég kom heim á hótel. Það var fullt af þeim þar hvort eða er.

Einn daginn við sundlaugina sá ég pínulítinn frosk. Ég elska að sjá svona dýr sem maður sér aldrei heima.

Föðurfjölskyldan fór síðan heim 4 dögum á undan okkur og þá vorum við mamma vara tvö ein, sem var líka rosalega gott á sinn hátt. Við fórum saman í vatnagarð sem heitir Aquatica og eyddum heilum degi þar. Við fórum í fullt af skemmtilegum vatnsrennibrautum og slökuðum á í sólinni. Það var líka rosa gott að slaka bara á við sundlaugina á hótelinu og það gerðum við þá daga sem við fórum ekki neitt, en þeir voru ekki margir. Það er svo rosalega margt sem hægt er að gera hérna í Orlando.

Síðasta daginn þurrftum við að vera búin að tæma íbúðina okkar kl. 11:00 um morgunin. Við brunuðum þá beint í Sanford dýragarðinn áður en við förum í flugið kl. 19:00 um kvöldið.

 

Yndisleg ferð í alla staði. Ástarþakkir til Vildarbarna !