Bandaríkjaferð 6.-17. Mars 2009-04-13

 

Föstudaginn 6. mars fór fjölskylda Rúnars Loga Loftssonar á vegum vildarbarna til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Orlando, Florida. Þeir sem voru í þessari ferð voru Rúnar, Hilmar Freyr, bróðir Rúnars og foreldrar hans, Signý og Loftur. Við flugum út klukkan 17:00 að íslenskum tíma með Icelandair og tók flugið  7 klukkustundir og 15 mínútur. Á meðan á flugi stóð nýttum við okkur afþreyingar kerfi vélarinnar og horfðum á bíó, hlustuðum á tónlist eða fylgdumst með flugi vélarinnar.

Við lentum í Orlando klukkan 20:00 að staðartíma og byrjuðum á því að ná í bílaleigubílinn sem við fengum til afnota á meðan á ferð okkar stóð. Hann var sem betur fer með leiðsögutæki sem var mikið notað á meðan á dvöl okkar stóð. Á leið til áfangastaðar okkar komum við á bensínstöð og keyptum okkur mat til að hafa í morgunmat. 

Við vorum komin á áfanfangastað okkar um klukkan 22:00 sem var Grand Bahama Resort í Davenport. Við fengum mjög góða íbúð á fyrstu hæð og komum okkur fyrir en fljótlega var farið að sofa eftir langt ferðalag. Fjölskyldan var vöknuð um klukkan 6 um morguninn því við vorum ennþá á íslenskum tíma og því var líkamsklukkan okkar um klukkan 11.

Á meðan á dvöl okkar stóð breyttist klukkan í Bandaríkjunum og því var tímamismunurinn ekki 5 tímar heldur 4. Fyrsta morguninn var aðstaðan sem þessi  staður hafði upp á að bjóða skoðaður. Þarna voru sundlaugar með heitum pottum fyrir hverja íbúðasamstæðu og svo var stærra svæði þar sem aðstaða var fyrir fólk ef það vildi fara á netið, panta einhverja þjónustu, upplýsingafulltrúi, snyrtistofa, ljósmyndastofa, bar og ýmislegt annað, þar á meðal móttaka.

Við ákváðum að liggja í leti fyrsta daginn og bara flatmaga við sundlaugarbakkann. Næsta dag var farið í Sun Spot sem er lítill garður með ýmsum leiktækjum, aðallega var farið í Go-kart og var mikil keppni í hverri braut.

Næsta dag var ákveðið að fara í Universal og er hægt að segja að sá staður er stór. Þarna eyddum við öllum deginum en náðum samt ekki að klára að skoða allt það sem staðurinn hefur til sýnis. Fyrst við vorum komin til Bandaríkjanna þá er ekki hægt annað en að fara í Sea World og var því ákveðið að eyða einum degi þar. Þarna var farið í Rússibana, horft á sjóræningjasýningu með sæljónum, farið á sýningu með Háhyrningum, sem gerðu alla í áhorfendur í neðri röðum sýningarinnar rennblauta með því að skvetta á þá með sporðunum og stökkva upp og láta sig falla með miklum bægslagangi þannig að vatn gusaðist yfir alla áhorfendur. Við skoðuðum vel allan garðinn og vorum þar í góðan tíma og skemmtum okkur vel. 

Á miðvikudegi ætluðum við að fara að og sjá eldflaugaskot Discowery en á miðri leið að skotstað kom í ljós að skotinu hafði verið frestað og ætlunin væri að reyna næsta sunnudag. Við urðum því að snúa við og kíktum þá bara í Florida Mall til að versla og skoða svona stóra verslunarmiðstöð.

Okkur hafði verið sagt að við yrðum að fara í Bush Garden og var því ákveðið  að það yrði næsti áfangastaður fjölskyldunnar. Þarna var farið í rússibana af stærri gerðinni, farið í lestarferð um garðinn, farið í siglingu á gúmmítuðru þar sem allir urðu rennblautir og rússibana sem gerði einnig marga blauta, fengið sér að borða og skoðað öll þau dýr sem voru þar til sýnis. Þetta er garður sem allir ættu að fara í.

Síðan var farið út að borða á Áströlskum veitingastað sem heitir Outback og fengum við þar alvöru steikur sem voru vel við vöxt.  Á sunnudag var ákveðið að fara til að sjá eldflaugaskotið og fórum við því snemma af stað til að lenda ekki í umferðatöf. Þó að við hefðum lagt snemma af stað var samt komin löng bílaröð og voru allir að fara til að sjá skotið. Við fórum og keyptum okkur nesti og komum okkur fyrir á lítilli strönd beint á móti Cape Canaveral. Mikill fjöldi fólks var þar samankomin til að sjá skotið og greinilegt var að það fólk kom vel undirbúið. Mikil fjöldi húsbíla var út um allt og var búið að leggja bílum þar sem hægt var að koma þeim. Eldflaugaskotið sjálft tók ekki nema um 10 mínútur en ekki hefðum við viljað missa af því. Það var frábært þegar hljóðið barst okkur því hávaðinn var mikill og vorum við samt í mikilli fjarlægð. Lágmarksfjarlægð frá eldflauginni er 5 mílur og áður en skotið var upp fóru herþyrlur yfir svæðið.  Þessu geimskoti hafði verið frestað mjög oft mánuðinn á undan og var eins og örlögin gripu þarna inn í. Við vorum rúma þrjá klukkutíma heim aftur því að umferðin var þvílík.

Mánudagurinn var letidagur og var því bara flatmagað við sundlaugarbarminn, farið í tennis og rölt um staðinn. Á þriðjudag var heimferð og vorum við mætt út á flugvöll um klukkan fimm en flugið var klukkan sjö. Við skiluðum bílnum og fengum okkur svo að borða inn á flugstöðinni. Við kvöddum Orlando í 27 stiga hita og sól og tók flugferðin heim  um 7 klukkustundir.

Það var ánægð fjölskylda sem kom til landsins þó að það tæki á móti okkur með roki og rigningu, ánægjulegri ferð var lokið og allir voru himinlifandi með ferðina. Við viljum þakka Vildarbörnum Icelandair kærlega fyrir að hafa fengið að fara þessa ferð. 

Rúnar Logi Loftsson og fjölskylda.