Ég vil byrja á því að þakka því yndislega fólki sem gerði okkur fjölskyldunni kleift að fara í þessa mögnuðu ferð kærlega fyrir. Við fórum öll saman, ég, mamma, pabbi og systkinin mín fjögur (Svanbjörg og Hjörvar kærastinn hennar, Kjartan og Kata kærastan hans, Júlía og Sverrir). Svo skemmtilega vildi til að fjölskyldan hans Hjörvars var í Orlando á sama tíma og við og vorum við því heljarinnar stór hópur. Ég hafði aldrei farið í flugvél áður og hlakkaði mikið til. Það hefur reynst mér erfitt að skipta um umhverfi og fara á nýja staði þar sem ég er einhverfur en það var búið að undirbúa mig vel undir ferðina, lesa félagshæfnisögur og sína mér myndir. Alexander_Birgir_1

Við lögðum í hann seinnipartinn 21. október. Ég verð eiginlega að segja frá því að mamma er pínu flughrædd, sérstaklega í flugtaki og reyndi hún að passa vel upp á að ég yrði ekki var við það. Mér aftur á móti fannst flugtakið hrikalega skemmtilegt og hló allan tímann á meðan flugvélin hóf sig á loft. Mamma gat nú ekki annað en hlegið með mér og þar með var hræðslan hjá henni úr sögunni. Þetta var sem sé forsmekkurinn að ferðinni, bara gleði og gaman og mikið hlegið. Ég er hræddur um að fólkinu mínu hafi líka þótt mjög gott að komast í þessa ferð á þessum tímapunkti þar sem lítið annað hafði verið í umræðunni og fréttum undanfarið nema kreppa og almenn leiðindi. Þrátt fyrir að flugið væri nokkuð langt leiddist mér ekkert enda vorum við í vél með afþreyingarkerfi, sem mér fannst algjör snilld.

Alexander_Birgir_2 Húsið sem við fengum var æðislegt og frábært að hafa sundlaug í garðinum til að svamla í. Bíllinn, sem var ekki síðri, var óspart notaður enda fórum við út um allt undir styrkri stjórn „Never lost - kerfisins". Þurftum reyndar að taka nokkrar U-beygjur, en það var nú bara af því að mamma og bróðir minn sofnuðu á verðinum (það er svo margt í Orlando sem glepur augað). Ég var líka nokkurs konar stjóri í þessari ferð og vildi hafa hlutina eftir mínu höfði. „Dríf oss" heyrðist ekki svo ósjaldan í mér þegar mér fannst hlutirnir ekki ganga nógu hratt fyrir sig. Það getur verið erfitt að fá svona margt fólk til að vera í takt. En það tókst samt mjög vel.

Mamma hafði áhyggjur af einu áður en við lögðum af stað og það var að ég myndi týnast í þeim gríðarlega mannfjölda sem er þarna úti. Ég á það nefnilega til að vera óhræddur við að fara mínar eigin leiðir og fara þangað sem mér dettur í hug (og er snöggur að því).

Það var því brugðið á það ráð að kaupa úlnliðsband á mig og svo valdi ég þann sem var svo heppinn að fá að fylgja mér. Bræður mínir urðu oftast fyrir valinu enda gátu þeir hlaupið með mér og voru óþreytandi við það. Ég er einnig svakalega duglegur að næla mér í nýja vini og á auðvelt með að heilla fólk upp úr skónum (spyr t.a.m. næstum alla starfsmenn verslana sem við komum inn í hvort þeir vilji vera vinir mínir - auðvitað er það auðsótt). Á því ógrynni af vinum og „viltu vera vinur minn" var það fyrsta sem ég óskaði eftir að læra á ensku (eignaðist mjög marga og góða vini í Orlando).

Alexander_Birgir_3 Það sem við gerðum var fjölbreytt. Við fórum í nokkra garða (Universal, Island of Adventure, Sea World, og Bush Gardens). Svo fórum við í Wonder Works, Ripleys believe it or not, skoðuðum Geimstöð, fórum tvisvar á ströndina (Cocoa beach), sáum bílasýningu í Old town, skruppum í Down town Disney og margt fleira.

Pabbi og annar bróðir minn fóru á kvartmílusýningu, það fannst þeim mjög skemmtilegt. Þetta var hreint út sagt algjört ævintýri og ég held að ég hafi aldrei á ævinni skemmt mér eins vel. Það sem mér fannst hvað skemmtilegast var að fara í Wonder Works (í húsið á hvolfi).

Alexander_Birgir_4Þar var svo margt skemmtilegt að gera s.s. að blása risastórar sápukúlur, fara í jarðskjálftahermi, prufa geimbúning, sitja á mótorhjóli og ganga yfir brú þar sem ljós og litir hringsnúast í kringum mann (þar hló ég mig máttlausan), svo eitthvað sé nefnt. Simpson-ride í Universal var æði. Einnig var ótrúlega gaman að hitta Spiderman, Simpson-fjölskylduna og fullt af öðrum fígúrum úr kvikmyndaheiminum.

Dýrin í Sea World og Bush Gardens voru flott. Sérlega magnaðar sýningarnar í Sea World og vatnsrennibrautin hrikaleg (samt skemmtileg). Auðvitað var líka komið við í verslunum en ég get ekki sagt að mér hafi þótt það neitt spennandi. Ég keypti mér þó það sem mig langaði helst í, nefnilega Liverpool-galla með nafni og númeri Torresar og fótboltaskó.

Þessi ferð var í alla staði vel heppnuð og komu þreyttir en ánægðir ferðalangar heim að morgni 2. nóvember.