Gunnar Þorbjörn fékk úthlutað ferðastyrk hjá Vildarbörnum vorið 2007. Ákvörðunin um áfangastað var erfið því við vorum ekki viss um hvernig hann myndi bregðast við ferðalaginu og síðasta flugferð sem hann hafði farið í hafði gengið mjög illa. Og hann var enn að jafna sig eftir mjög erfiða aðgerð og veikindi í kjölfarið.

En það var ákveðið að láta reyna á þetta og þann 25 september lögðum við í hann til Orlando með allan viðbúnað til að bregðast við hinu versta. Við fengum með okkur aðstoðarmann, Hafstein uppkominn bróður þeirra, sem sýndi sig að vera mjög góð hugmynd þegar ferðast er með þrjá fjöruga stráka með ólíkar þarfir. Taskan mín var full af læknisvottorðum, sérfæði og lyfjum og kollurinn fullur af vangaveltum hvernig gengi að koma þessu í gegn um tollinn, hvernig ætti að taka á óvæntum uppákomum og við vorum með aukasæti til að Gunnar Þorbjörn gæti legið út af.

En lífið er jú sífellt að koma manni ánægjulega á óvart. Flugið gekk með ágætum og maturinn var hinn besti svo töluvert var eftir af nestinu þegar lent var. Við komuna sáum við hve snjallt það var að lenda að kvöldi og í myrkri. Viðbrigðin vegna hitans hefðu verið mun meiri ef sólin hefði verið á lofti. Við fengum afhentan ljómandi góðan sjö manna bíl með nægu plássi fyrir hjólastól og farangur og lögðum svo traust okkar á leiðsögutölvuna í bílnum til að koma okkur á áfangastað enda algjörlega áttavillt. Og ef frá eru talin smá frávik vegna vankunnáttu gekk það ljómandi.Gunnar_Torbjorn_1

Húsið sem við fengum í útjarðri Kissimmee var stórt og rúmgott í vöktuðu hverfi. Fjögur svefnherbergi og tvö baðherbergi, stórt hol, stofa og borðstofa og með innbyggðum bílskúr sem reyndist algjörlega nauðsynlegt. Það var mjög lítil umferð og við sáum aðeins fólk í tveim öðrum húsum. Baka til var sundlaug og hún og veröndin þakin neti í grind. Við fengum samt bæði froska og eðlur í heimsókn og skemmtum okkur yfir írafárinu í þeim þegar við komum út. Gunnar Þorbjörn hafði þó meiri áhuga á að skoða laugina með Hafsteini meðan bræður hans eltust við eðlurnar.

Fyrsti dagurinn fór að mestu í hvíld og til að aðlagast hitanum. Við vorum fljót að finna næstu Publix verslanir fyrir matarinnkaupin áður en við hættum okkur lengra.

Annan daginn var svo lagt í Disney World og við völdum að fara í Magic Kingdom, sem var ævintýralegt. Það var ótrGunnar_Torbjorn_3úlegt að fylgjast með drengjunum og eiginlega vorum við fullorðna fólkið Gunnar_Torbjorn_4ekki síður bergnumið yfir því sem í boði var. Gunnar Þorbjörn fékk hreinlega VIP þjónustu hvar sem komið var og alls staðar voru til aukaleiðir fyrir hjólastólinn þar sem allt annars virtist ókleift. Þegar að rússíbönunum kom vorum við foreldrarnir fegin aðstoðarmanninum og sátum hjá, ásamt Gunnari Þorbirni og hvíldum okkur í skugganum. En Gunnar Þorbjörn átti sínar bestu stund þegar við loks komum að hringekjunni og fékk hann að fara þrjár umferðir í röð, hlægjandi og skríkjandi svo að fólkið umhverfis hann smitaðist og brosunum fjölgaði.Það voru þreyttir og ánægðir bræður sem fylgdust með flugeldasýningunni í lok dagsins.

Gunnar_Torbjorn_2Við tókum næsta dag rólega busluðum í lauginni og kíktum smávegis í búðir en svo var Bush Garden í Tampa næstur á dagskrá. Ekki var síðri þjónustan þar og aðgengið. Gunnar Þorbjörn fékk frítt og aðstoðarmaður með honum og hinum var boðinn pakki fyrir Bush Garden og Sea World fyrir sama og inn í einn garð. Þarna vorum við bíræfnari og Gunnar Þorbjörn fór í Vatnsrússibana og fleiri tæki með dyggri aðstoð Hafsteins. Og naut þess til fullnustu. Og til að kóróna allt fengum við miða fyrir auka dag í garðinum við brottför. Gunnar_Torbjorn_8

Eftir annan hvíldardag var svo farið í Sea World. Og enn fengu Gunnar Þorbjörn og fylgdarmaður frítt inn. Hér verður ekki líst öllu því sem fyrir augu bar eða hughrifunum, það er of stórkostlegt. En sennilega eiga höfrungarnir vinninginn. Þjálfarinn fékk þá til að teygja sig upp úr lauginni og smella blautum kossi á Gunnar Þorbjörn sem óhræddur teygði sig á móti okkur til mikillar furðu. Við erum líka enn að vinna úr því að hafa klappað „skötu", svolítið óraunverulegt en tilfellið samt. Gunnar Þorbjörn skemmti sér líka konunglega yfir öskrunum í þeim sem voru í rússibananum. Og enn fengum við miða fyrir aukadag í garðinum.

Næsta ferðadag var ferðinni heitið í Gatorland. Og sennilega skipa Krókódílar annGunnar_Torbjorn_5an sess hjá okkur eftir það. En mesta athygli vakti þó hjá drengjunum fósturdýr garðsins. Heimilislaus og jafnvel sködduð „gæludýr" sem þeir hafa skotið skjólshúsi yfir, og vildu óðfús láta klappa sér og gefa gott í munninn. Þarna var líka verið að taka „Ace Ventura" kvikmynd þarna á meðan við vorum á ferðinni og var fylgst með því góða stund. Gunnar_Torbjorn_7

Þar sem að við áttum aukamiða í Bush Gardens ákváðu drengirnir og Hafsteinn að fara þangað meðan við foreldrarnir skruppum í stutta heimsókn til vinafólks í Inglis sunnanvert á skaganum og var ekki annað að sjá en þeir hefðu notið þess, ekki síður en fyrri daginn.

Svo skiptum við liði og mamma og Gunnar Þorbjörn áttu rólegan dag við laugina meðan hinir fóru á flugsafn sem þá langaði að sjá.

Brottfarardaginn fóru bræðurnir og Hafsteinn aftur í Sea World á meðan við gengum frá og skiluðum lyklinum. Að því búnu var síðasti viðkomustaður Dunkin doughnuts og girnilegt ferðanesti keypt.

Margt við þessa ferð kom okkur á óvart og ekki síst Gunnar Þorbjörn. Hann blómstraði í ferðinni. Hitinn átti mjög vel við hann og spelkur og spangir fengu frí megin hlutann af dvölinni þar. Hann virtist mjög ánægður og lét það í ljós. Hann tók þátt í leikjunum og fór í tækin í görðunum og varð síður en svo meint af. Slæmt heilsufar sem við höfðum áhyggjur af, var hreinlega gleymt.Gunnar_Torbjorn_6

Og við erum reynslunni ríkari. Ef við eigum einhvern tíman eftir að fara í svona frí aftur vitum við hverju má búast við og áreiðanlegt að það verður aftur farið á heitan stað því það var ótrúlegt hve góð áhrif það hafði á Gunnar Þorbjörn.

Kærar þakkir fyrir okkur Vildarbörn Icelandair.

Gunnar Þorbjörn og fjölskylda, Akureyri.