“Ertu ekki að grínast? Ertu að segja satt? Nei, hættu að plata mig!!” þetta var það sem aumingj Dóra þurfti að hlusta á þegar hún hringdi og tilkynnti mömmu að ég hefði verið svo lánsamur að fá úthlutað ferð hjá Vildarbörnum. Ekki það að Dóra er sennilega sögð ljúga í hvert sinn sem hún hringir að lætur vita af þessum lottóvinningi því þetta er ekkert nema draumur og maður bíður eftir því að vera klipinn.

Júlíus Freyr (ég) er s.s. 12 ára og bý á Neskaupstað með mömmu, stjúppabba, systur og bróður. Svo á ég eina systur á Akureyri sem við buðum með í draumaferðina. Ég fæddist með þrjá hjartagalla og fór í aðgerð til Boston þegar ég var nýfæddur og í hjartaþræðingu 3 ½ mánaða. Í dag er ég með tvo hjartagalla sem þarf að fylgjast með. Í gegnum tíðina hefur verið svolítið brölt á mér og því æðislegt að geta boðið foreldrum mínum og systkinum í skemmtiferð þar sem hægt era ð gleyma erfiðleikunum.

Takk fyrir okkur, allir sem standa að þessu frábæra verkefni sem Vildarbörn er og takk allir sem gefa aurana sína í umslagið hjá Icelandair. Það er ykkur að þakka að áttum þessa yndislegu daga í himnaríki.

Ferðalag okkar byrjaði á því að við keyrðum til Reykjavíkur á fimmtudegi frá Neskaupstaðog  það ferðalag tók okkur 10 klst svo við fórum fljótlega að sofa þegar  komið var til Reykjavíkur. Á föstudagsmorgni 11. September 2015 vöknuðum við 7:30 því Júlíus þurfti að fara til augnlæknis. Fjölskyldan ákvað einnig að drífa sig í kippingu. Loksins var komið að þessu og kl 13 lögðum við af stað út á flugvöll. Allt gekk vel og fljótt fyrir sig og allir super spenntir, búin að telja niður frá 267 dögum. Þjónustan var mjög góð um borð og allir mjög elskulegir. Við flugum í rúma átta tíma og allt tók sinn tíma á flugvellinum úti. Þegar við komumst svo á hótelið var klukkan orðin sex að íslenskum tíma um nótt. Hædí og Dóra tóku á móti okkur á flugvellinum og hjálpuðu okkur með bílaleigubílinn. Ómetanlegt að hafa þær með okkur. Eins fylgdi Dóra okkur að hótelinu.

Við vöknuðum snemma að staðartíma á laugardeginum eða um sex , þá búin að sofa í fimm klst. En allir svo spenntir að hefja dagskránna.Við byrjuðum á því að fara og ganga frá hlutum í sambandi við íbúðina og fórum svo á Denny’s sem var með æðislegan mat. Það sáum við í fyrsta skipti staðfestingu á skammtastærð Bandaríkjana og allir að springa. Þarna var æðislegt starfsfólk. Það var rosalega heitt  allan daginn en sem betur fer af og til rigning. Fórum svo í Outlet og versluðum mikið, sérstaklega stelpurnar. Eftir hádegi drifum við okkur í Disney Animal Kingdom sem var stórkostlegt og frumskógarlegt. Fórum í Safari ferð sem var æðislegt en þar sáum við laus frumskógardýr. MacDonalds matur í kvöld og ævintýraleg búð þar við hliðina með fullt af Disney vörum. Þegar komið var úr búðinni var hellidemba, þrumur og eldingar. Við rennblotnuðum bara á því að hlaupa út í bíl, skemmtileg upplifun.

Sunnudagurinn var tekinn í búðarráp og afkastur dagsins var mjög mikill. Fórum í outlet, Walmart og Target. Á mánudeginum 14/9 fórum við snemma í Seaworld og vááá, frábær upplifun. Ótrúlega flottar sýningar og við vorum svo heppin að við náðum þeim öllum. Öll fjölskyldan fór svo saman og klappaði háhyrningi. Hún lék við okkur og rennbleytti okkur. Helstu harðjaxlarnir fóru í Manta, Kraken og margt fleira svakalegt. Yndislegur dagur og líkur draumi.

Á þriðjudeginum vöknuðum við snemma og ákváðum þá miðað við veður að fara í Universal studio. Þar var allt mjög stórt og mikið um að vera í báðum görðunum. Við forum á hrollvekjusýningu sem var mjög áhugaverð og spennandi. Þar var verið að sýna hvernig hrollvekjur eru búnar til í Hollywood t.d sár og slíkt. Þegar við komum af þeirri sýningu var smá rigning og við keyptum okkur öll regnslár. Um leið og við gengum þaðan út var hætt að rigna en það var einkennandi fyrir dvöl okkar þarna. Rigningin hætti mjög fljótt. Í Universal fórum við m.a. í Harry Potter, Minions, ET, Jurassic park og Simpsons.  Allir örmagna eftir daginn, bæði af hita og göngu.

Á miðvikudeginum forum við í Florida Mall sem var rosalega stórt og við komumst ekki yfir helminginn. H&M var skemmtilegasta búðin að mati stelpnanna. Við borðuðum tvisvar sinnum í mollinu. Þennan dag var gott veður og eiginlega synd að hafa verið inni.

Á fimmtudeginum slöppuðum við af fram af hádegi og forum í sundlaugina á hótelinu. Fórum svo og keyrðum í gegnum fátæktrahverfi og sáum útigangsmann en það er eitthvað sem okkur fannst mjög erfitt að sjá og ekkert geta gert við. Skruppum í Mall of Millenia og bökkuðum jafn harðan þar út því þar voru bara mjög dýrar merkjavörur.

Í dag föstudag 18/9 vöknuðum við snemma og vorum fyrst í röðina inn í Aquatica, spenningurinn í hámarki. Fórum í öll tækin og strákunum fannst þetta skemmtilegasti garðurinn. Rosalega heitt (42 gráður)og allir brunnu á öxlunum. Júlíusi fannst Lazy river skemmtilegst en stelpurnar héldu áfram að ögra lífinu í brjálæðislegustu tækjunum. Keyptum all day eat passa fyrir alla fjölskylduna og það var mjög þægilegt fyrir alla. Þetta var yndislegur garður og mátulega stór.

Laugardagurinn 19/9 rann upp þrátt fyrir að við reyndum að bera á móti því. Við skiluðum íbúðinni og fórum í outlet til að drepa tímann þar til við þyrftum á flugvöllinn. Við fórum snemma út á flugvöll þar sem allir voru að verða búnir með peninginn sinn J Við biðum svolítið lengi á flugvellinum en það var allt í lagi, við spiluðum bara og höfðum gaman. Borðuðum og létum fara vel um okkur. Við lentum kl sex að nóttu til hér á Íslandi og keyrðum beint til Akureyrar og gistum þar í eina nótt, því þar býr hluti okkar ættinga og vina. Á sunnudeginum fórum við svo alla leið heim og venjuleg rútina hófst á mánudeginum.

Eftir stendur þakklæti til allra sem að þessari ferð komu, gleðin, hamingja og dýrmætar minningar.

Hjartans kveðjur

Júlíus Freyr og fjölskylda