12. október
Ferðin út gekk vel og Heidi tók á móti okkur á flugvellinum. Hún fór með okkur og náði í bílaleigubílinn og við ókum rakleiðis á hótelið. Þar beið okkar næturvörður sem lét okkur fá lykil að íbúðinni.

13. október
Slökuðum á fyrsta daginn í Orlando. Versluðum helstu nauðsynjar í Publix og borðuðum heima um kvöldið.

14. október
Ókum til St. Petersborgar sem er við Mexíkóflóann og skoðuðum Dali-safnið sem er litið og aðgengilegt listasafn í skemmtilegri byggingu og með góðri leiðsögn. Héldum þaðan til Sarasota, sem er lítil borg við ströndina, og tékkuðum inn á hótel í tvær nætur. Um kvöldið hittum við gamla vini okkar og fóru út að borða á skemmtilegum sjávarréttarstað sem heitir Owens Fish Camp.

15. október.
Veðrið var frábært 25-30 C allan tímann. Þennan dag fórum við á Siesta ströndina í Sarasota og slökuðum á í hvitum sandinum. Boðið var upp á ókeypis strandhjólastóla á ströndinni og við leigðum okkur sólhlífar og sólstóla. Sjórinn var frábær og við busluðum í honum fram eftir degi. Heimilisfaðirinn gleymdi að bera á sig sólvörn og var heppinn að brenna ekki illa. Um kvöldið borðuðum við úti á veitingastað við höfnina sem er full af lúxussnekkjum. Við fórum svo í göngutúr fyrir svefninn i fullkomnu veðri.

16. október.
Við vorum búin að kaupa okkur miða í Busch Garden og Seaworld sem fást fyrir minna en 100$ ef þeir eru keyptir saman. Við vorum líka búin að kaupa miða í „safariferð“ í Busch Garden þangað sem ferðinni var heitið þennan daginn. Auk Safari ferðarinnar fórum við á tvö Show í Bush Garden sem eru innifalinn í aðgangseyrinum. Annað var skautashow með frábærum skautadönsurum, dýrum, sviðsetningu og búningum. Það fær alveg fimm stjörnur. Í safari ferðinni komumst við í námunda við dýrin og handfóðruðum gíraffa með salati. Busch Garden er einstaklega vel skipulagður og skemmtilegur garður og allir til þjónustu reiðubúnir við þá sem eru hreyfihamlaðir. Um kvöldið ókum við aftur til Orlando þar sem tvær frænkur voru komnar frá Íslandi og Sviss til að slást í hópinn með okkur.

17.október.
Viðfórum í Florida Mall til að hitta frænku mína sem er flugfreyja hjá Icelandair. Það var rosalega mikill hávaði og læti í þessu malli og við vorum öll sammála um að það væri ömurlegt þannig að við vörum við því.
Dóra frænka átti brúðkupsafmæli og bauð okkur öllum um kvöldið á Benihanas sem er japanskt steikhús þar sem kokkarnir elda beint fyrir framan mann og það með tilþrifum. Þetta er eitt skemmtilegasta veitingahús sem hægt er að hugsa sér og maturinn alveg æðislegur. Kokkurinn var ótrúlega snjall með hnífanna og bjó meira að segja til eldgos á pönnunni.

18.  október
Þennan dag notuðum við mest til að slaka á við sundlaugina en mamma og pabbi skelltu sér í Vineland –Outlets mallið og versluðu aðeins. Það er miklu betra mall og maður gengur utandyra á milli verslananna. Um kvöldið fórum við á Chili´s sem er Tex-mex veitingastaður skammt frá hótelinu. Maturinn var mjög góður, skammtarnir risastórir og verðið hagstætt.

19. október.
Um morguninn fengum við að skipta um íbúð og fengum íbúð sem var ekki með teppum á öllum gólfum en það er mikill munur að vera á parketi og flísum í hjólastól. Eftir hádegi fórum við  í Seaworld en aksturinn þangað tekur ca. 30 mín.  Við notuðum tímann til að fara á háhyrningasýningu, höfrungasýningu og sæljónasýningu sem voru hver annarri skemmtilegri. Um kvöldið elduðum við heima og slökuðum á.

20. október.

Þetta var rólegheitadagur við sundlaugina í sól og sælu. Um kvöldið bauð Elísabet frænka okkur á Ruth Chris Steakhouse sem er flottasta steikhúsakeðjan í Ameríku. Steikurnar bráðna upp í manni og skammtarnir eru það stórir að okkur dugðu þrjár steikur þó að við værum sex.

21. október
Við keyrðum ömmu og frænkurnar í Millenia Mall sem er glæsilegasta mallið í Orlando með öllum flottustu búðunum. Þaðan fórum við foreldrarnir og vildarbarnið í Wild Florida dýragarðinn en þangað er um klst. akstur. Þetta er lítill garður en með stóru fenjasvæði sem við sigldum um með leiðsögumanni í 60.mín og sáum villta krókódíla, erni og fleiri fugla. Síðan eru önnur dýr í búrum og það er hægt að fá að halda á litlum krókódílum og klappa fleiri dýrum. Virkilega skemmtilegur lítill garður semkostar bara $50 í með siglingunni.

22. október
Við ákváðum að enda ferðina með stæl. Við notuðum fyrri hluta dagsins til að pakka og slaka á við sundlaugina. Seinni partinn skelltum við okkur í Downtown Disney sem heitir reyndar núna Disney Springs og röltum aðeins um. Þar er slatti af Disney-búðum, veitingastöðum og fleira, auk Cirque de Soleil þangað sem ferðinni var heitið. Þetta er flottasti sirkus í heimi með ótrúlega glæsilegri sýningu sem er samfellt í 90.mínútur og á sér enga líka. Fyrir þá sem eru í hjólastól er skynsamlegt að kaupa miða í gegnum síma til að fá sæti ætlað fötluðu fólki.
Að lokinn sýningunni buðu amma og Dóra okkur á Norman´s sem er einn flottasti „fine-dinng“ veitingastaðurinn í Orlando og er staðsettur á Ritz Carlton hótelinu. Þetta kvöld rennur okkur aldrei úr minnum og setti svo sannarlega punktinn yfir frábæra dvöl í Orlando.

23. október
Við karlarnir chilluðum við sundlaugina á meðan dömurnar skruppu í Target. Síðan tékkuðum við út af Tuscana Resort með fullt af frábærum minningum í farteskinu en við fjölskyldan höfum aldrei farið saman til útlanda í svona langa ferð áður. Þjónustan og aðbúnaðurinn á Tuscana Resort var allur til fyrirmyndar. Við ókum á flugvöllinn tímanlega, skiluðum bílnum og áttum þægilegt flug heim. Þetta var í tveimur orðum sagt „frábær ferð“ og öll umgjörðin og þjónusta Icelandair eins og best verður á kosið.

Kærar þakkir fyrir okkur.

Haukur Hákon Loftsson, Loftur Atli Eiríksson og Sigrún Hauksdóttir