24.04.2012

25 börnum og fjölskyldum þeirra var afhentur ferðastyrkur úr sjóðnum Vildarbörn Icelandair í dag. Alls bárust um 300 umsóknir að þessu sinni. Markmið sjóðsins Vildarbörn er að gefa langveikum börnum, foreldrum þeirra og systkinum, tækifæri til þess að fara í draumaferð sem þau ættu annars ekki kost á.

Höfðingleg gjöf Eduardo Andreu

Alls hafa tæplega 330 fjölskyldur notið stuðnings frá sjóðnum frá stofnun hans, að því er fram kemur í tilkynningu frá Icelandair. Þetta er 18. úthlutun sjóðsins og 9. starfsár hans. Að þessu sinni barst Vildarbörnum höfðingleg gjöf frá aðstandendum Eduardo Andreu, sem rak ferðaskrifstofu í Flórída og var helsti samstarfsaðili Icelandair þar um langt árabil. Hann aðstoðaði einmitt margar fjölskyldur Vildarbarna í Orlando af mikilli alúð. Eduardo lést í janúar sl. og við úthlutun í dag færði eftirlifandi maki hans, David Moyer, Vildabörnum að gjöf fimm þúsund dollara til minningar um hann.

Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með beinu fjárframlagi Icelandair, frjálsum framlögum félaga í Saga Club Icelandair sem geta gefið af Vildarpunktum sínum, með söfnun myntar um borð í flugvélum Icelandair, sölu á Vildarenglinum um borð í vélum Icelandair og söfnunarbaukum á Keflavíkurflugvelli og söluskrifstofu Icelandair.

Margir velja að fara í Disneyland

Í hverjum styrk frá sjóðnum felst skemmtiferð fyrir barnið og fjölskyldu þess, og er allur kostnaður greiddur - flug, gisting, dagpeningar og aðgangseyrir að sérstökum viðburði sem barnið óskar sér. Við síðustu úthlutanir hafa margar fjölskyldanna valið að fara til Flórída og heimsækja Disneyland.

Starfsemi Vildarbarna Icelandair byggist á hugmyndum og starfi Peggy Helgason, eiginkonu Sigurðar Helgasonar, sem lengi var forstjóri Flugleiða og nú stjórnarformaður Icelandair Group, en Peggy hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Hún er nú í stjórn Vildarbarna Icelandair. Verndari sjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, en Sigurður Helgason er formaður stjórnar hans.