06.11.2011

Hilton Reykjavík Nordica Hótel breytti um svip þegar starfsmenn Icelandair Group mættu glaðbeittir með allskonar varning til að bjóða til sölu þar. Að þessu sinni var Kompudagurinn auglýstur í fjölmiðlum og máttur þeirra kom sannarlega í ljós þegar þessi skemmtilegi markaður opnaði, því ótrúlegur fjöldi fólks kom á staðinn.


Þá setti happdrættið sem var til styrktar Vildarbörnum skemmtilegan svip á Kompudaginn, en þar var aðeins dregið úr seldum miðum og vinningarnir gefnir af hópi íslenskra hönnuða, Saga shop og fleirum. Íslensku hönnuðurnir sem gáfu vinninga voru Mundi Vondi, Juniform, Mariu Lovísu, Spaks Manns Spjörum, Farmers Market, Norstrom, Birna, Kurl Project, Gust og Hanna Felting.  Auk þess voru vinningar frá Saga Shop, Lakkalakk og Name It

Helga Möller stjórnaði happdrættinu með miklum skörungskap og söng síðan nokkur lög.

Mikið annríki var hjá flugfreyjunum okkar þeim Bergþóru Kristínu Garðarsdóttur, Önnu Dís Sveinbjarnardóttur og Svövu Bernhard Gísladóttur sem mættu í hátíðarbúning flugfreyja. Þær voru uppteknar allan tíman við að selja kaffi og meðlæti sem flugdeild Icelandair fékk Sælgætisgerðina Freyju til að gefa til Vildarbarna og að ógleymdum happdrættismiðunum.

Þá voru starfsmenn Reykjavik Hilton Nordica boðnir og búnir til að hjálpa til eins og hægt var enda var kaffið sem þessar flottu flugfreyjur seldu í boði hótelsins.

Dóra Elín Atladóttir „Director Icelandair Special Children's Travel Fund" er eflaust kát yfir því að Kompudagurinn færði Vildarbörnum rúmar 380.000.- krónur, sá peningur vel þeginn í það verkefni að láta drauma langveikra barna um ferðalög rætast.

Þess má geta að allir þeir sem komu að undirbúningi og framkvæmd Kompudagsins gáfu vinnu sína.