01.02.2007

Vildarbörn, ferðasjóður fyrir langveik börn og börn sem búa við sérstakar aðstæður, hefur í dag opnað endurnýjað vefsvæði. Markmið sjóðsins er að gefa börnum á Íslandi og í nágrannalöndunum tækifæri til ferðalaga ásamt fjölskyldum sínum. Í tilefni af 70 ára afmæli Icelandair er stefnt að því að veita 70 börnum ferðastyrki á árinu. "Frá upphafi hefur það verið markmið okkar að sem allra flestir geti nýtt sér þennan sjóð. Frá árinu 2003 höfum við stutt yfir 100 fjölskyldur til þess að komast í langþráð ferðalag og í ár viljum við gera en betur í tilefni af 70 ára afmæli Icelandair. Með þessari endurnýjun erum við að tryggja gott aðgengi að upplýsingum um sjóðinn og einfalda umsókn um styrk úr honum. Jafnframt höfum við uppfært vefþjónustur sjóðsins, gert vefsvæðið aðgengilegt í samræmi við nútímakröfur og auðveldað fólki að fylgjast með öllu starfi sjóðsins í gegnum vefinn." sagði Sigurður Helgason, formaður sjóðsins. Sjóðurinn var stofnaður af Icelandair sumardaginn fyrsta árið 2003. Verndari sjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Sjóðurinn er fjármagnaður með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með stofnframlagi Icelandair að fjárhæð 3 milljónir króna. Í öðru lagi með framlögum frá félögum í Vildarklúbbi Icelandair, sem geta gefið ferðapunkta sína til sjóðsins. Í þriðja lagi með afgangsmynt sem farþegum býðst að setja í umslög sem eru í sætisvösum véla Icelandair og taka flugfreyjur/þjónar félagsins á móti umslögunum. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári, á sumardaginn fyrsta og fyrsta vetrardag. Næsta úthlutun úr sjóðnum er fyrsta sumardag, 19. apríl 2007 og rennur umsóknarfrestur út 1. mars 2007. Vefsvæðið er hannað, byggt og hýst í samstarfi við Hugsmiðjuna, sem hefur sérhæft sig í aðgengismálum og eru til að mynda bæði Öryrkjabandalag Íslands og Blindrafélagið meðal viðskiptavina Hugsmiðjunnar. Öll hönnun vefsvæðisins tekur mið af þeim stöðlum sem gilda um gott aðgengi.